SACHER
Ein frægasta súkkulaðikaka í heimi! Var fyrst bökuð af Franz Sacher árið 1832, í Vín í Austurríki. Hann var þá einungis 16 ára gamall. Líklega er sú uppskrift byggð á enn eldri uppskrift frá 1718 sem birtist í matreiðslubók Conrad Haggers (Das Saltzburgisches Kochbuch).
Upprunalega uppskriftin á að vera varðveitt og bökuð á Hotel Sacher í Vín sem er í eigu afkomenda Franz. Mér var sagt af konu einni sem pantaði sér sacher á því fræga hóteli að mín uppskrift væri mikið betri!
Þessi uppskrift sem er hér birtist í dönsku blaði, mig minnir að það hafi verið Alt for Damerne, fyrir 30 árum og hefur fylgt mér síðan.

150 g smjör
150 g sykur
150 g brætt suðusúkkulaði
4 egg
Safi úr ½ sítrónu
150 g hveiti
½ tsk kakóduft
Þeir sem vilja geta bætt við 50 gr af fínhökkuðum möndlum.
50 g súkkulaði ofan á kökuna.

Bræðið súkkulaðið í vatnsbaði.
Aðskiljið eggin.
Þeytið hvíturnar.
Hrærið mjúku smjörinu, sykrinum og súkkulaðinu vel saman.
Setjið eggjarauðurnar út í, eina í einu, og hrærið vel.
Síðan eru eggjahvítunum og sítrónusafanum blandað varlega saman við.
Síðast er hveitið sett út í og áfram hrært rólega og varlega með sleif.
Setjið í smurt form og bakið við 140° – 150° í ca 40 mín
Stingið prjóni í til að athuga hvort kakan sé bökuð. Það má gjarnan koma smá blautt á prjóninn í miðju kökunnar. Þessa köku má alls ekki ofbaka!
Bræðið súkkulaði í vatnsbaði og setjið ofan á.

Þessi kaka nýtur sín vel sem eftirréttur og þá er gott að hafa ávexti með og að sjálfsögðu rjóma.